Wednesday 27 May 2009

Flutningar....

Jæja þá erum við endanlega búin að ákveða að flytja til Íslands í haust, erum með íbúðina í London á leigu til 15 september og ætli við komum ekki um það leytið. Ég var að fá að vita það að ég komst inn í master í Vinnusálfræði í HÍ og mig langar rosalega mikið í það nám þannig ég ætla bara að drífa mig !! Það er búið að vera æðislegt að búa í London og á ég pottþétt eftir að sakna þess, ætlum bara að nýta tímann vel sem við eigum eftir – tíminn líður svo rosalega hratt.

Við fórum á Beyoncé tónleika á mánudaginn og það var æðislegt, hún er ekkert smá góð svona live. Verð nú að viðurkenna að ég hef ekkert verið svakalegur aðdáandi en eftir tónleikana þá erum við orðnir aðdáendur nr 1 - nú er bara Beyoncé í okkar ipod..haha!
Fyrst við vorum byrjuð á þessu tónleikaæði okkar þá keyptum við miða á Britney Spears og eru tónleikarnir 7 maí – það verður örugglega rosa gaman og já erum líka að fara á Pearl Jam 18 ágúst. Þetta er orðin svo svakaleg dagskrá að ég þarf að halda utan um tónleikaplanið í word skjali svo við gleymum ekki tónleikum....:)

Svo ég haldi nú áfram að blaðra um tónleika þá er ég brjáluð yfir því að Amy er búin að cancela tónleikunum, ég get ekki lýst því hvað ég er pirruð við hana en svona er það þegar uppáhalds tónlistarmaðurinn manns er krakkfíkill.
Í því tilefni ætlaði ég að setja inn myndbönd af henni en það tókst ekki þannig það kemur bráðum....

Ásta

Wednesday 29 April 2009

Komin heim !!

Þá erum við komin heim frá Feneyjum, þetta var æðisleg ferð og ekki skemmdi veðrið fyrir, mæli alveg með því að kíkja þangað - setti inn eitthvað af myndum á Facebook.

Við erum búin að bæta á tónleikadagskrána okkar :)
27 júní förum við á Hard Rock Calling í Hyde Park og erum við fyrst og fremst að fara þangað til að sjá Fleet Foxes og svo verður Neil Young, Ben Harper & Relentless7, Seasick Steve og The Pretenders líka að spila.
4 júlí förum við svo á James Morrison - hann er algjört æði og er nýja platan hans geðveik.

Annars er allt mjög gott að frétta af okkur og eru sumargestirnir farnir að boða komu sína og eru fyrstu á leiðinni, Stebbi og Siggi koma á mánudaginn og verða hjá okkur í 2 daga - hlökkum að sjálfsögðu til að fá þá.

Þangað til næst
Ásta

Wednesday 8 April 2009

Arsenal og Feneyjar

Góð úrslit í Meistaradeildinni í kvöld. Arsenal náði góðum úrslitum og Man U vondum. Ég ætla samt ekki að veðja á móti þeim rauðu frá Manchester, þeir taka Porto 1-2 í Portúgal. Mikið vona ég samt að þeir tapi...

Annars erum við að fara í páskafrí á morgun, til Feneyja. Við hlökkum ótrúlega til að fara þangað enda er þetta víst einstakur staður. Það eru t.d. engir bílar á eyjunni, bara gondólar, þ.a. þegar maður fer í taxa þá er það ekki bíll heldur bátur. Mig hefur alltaf langað að koma til Ítalíu og mig rennir í grun að þetta sé ekki sísti staðurinn á stígvélinu, sérstaklega í ljósi jarðskjálftanna sem urðu þar í gær.

Að lokum biðst ég afsökunar á lengd síðustu færslu, ég missti mig aðeins í gleðinni. Góðar stundir, meira síðar.

Tuesday 7 April 2009

Topp 5

Ásta minntist í síðustu færslu á Doves tónleikana sem við erum að fara á 1. maí. Þeir voru að gefa út nýja plötu, Kingdom of Rust, sem er algjör snilld og er búin að vera stanslaust í spilaranum hjá mér síðustu vikuna.

Er þá ekki við hæfi að starta nýjum lið hér á síðunni? Topp 5 uppáhölds lögin mín með ýmsum hljómsveitum. Einn góður vinur minn sagðist nota bloggið sem einskonar dagbók og sagði það afar skemmtilega iðju að fletta til baka í blogginu sínu og sjá hvaða hugsanir þutu í gegnum kollinn hverju sinni. Þetta leist mér afar vel á hjá honum. Það sem ég er að hugsa um núna er: Mér finnst Doves frábær, nei, gjörsamlega mögnuð hljómsveit og ég er að pissa á mig af spenningi yfir að fá að sjá þá live eftir tæpan mánuð.

Hér á eftir fylgir því topp 5 listi minn af Doves lögum, þessa stundina. Ég hélt að ég gæti riggað þessu upp á núlleinni, en því er nú öðru nær. Þetta reyndist mér svo erfitt, að það eru m.a.s. fleiri en 5 lög á listanum, nánar tiltekið 8. Ég vona að mér verði fyrirgefið fyrir að hafa látið þetta eftir sjálfum mér, en ég fékk bara svo mikið samviskubit þegar ég ætlaði að byrja að skera listann niður að ég gat það ekki. Næst lofa ég að það verða bara 5 lög á listanum.

Það eru 3 lög af fyrstu 2 plötunum þeirra og svo sitthvort lagið af síðari 2 plötunum. Samt finnst mér eiginlega seinni plöturnar, sem heild vera betri. Svona er ég sérstakur. Lögin eru ekki í neinni sérstakri röð

Snowden (Some Cities, 2005)



Þetta er af frábærri, yndislegri plötu. Það er afskaplega erfitt að gera upp á milli laga á þessari plötu, það sem gerir plötuna nefnilega svo frábæra er hvað öll lögin eru góð! (mikil speki þetta, ég á greinilega mikla framtíð fyrir mér sem tónlistargagnrýnandi… eða þannig). Ég mæli afar sterklega með því að fólk kynni sér hana. Merkilegt nokk, þá eru fyrstu 2 lögin ekki jafn frábær og lög númer 3 – 8 þ.a. það er margt vitlausara en að byrja á lagi nr. 3. Þessa stundina er Snowden í uppáhaldi hjá mér, en það eru a.m.k. 5 önnur lög af þessari plötu sem kæmu til greina hér.


Kingdom of Rust (Kingdom of Rust, 2009)



Þetta lag er á nýju plötunni og var fyrsti singull. Ég var með þetta lag á heilanum í 3 daga stanslaust fyrst eftir að ég heyrði það. Miðað við fyrstu viðbrögð mín við plötunni eiga fleiri lög eftir að banka hressilega á þennan lista, en þetta er það eina sem kemst þangað að sinni

Pounding (Last Broadcast, 2002)



Til að lýsa þessu lagi ætla ég að vitna í “henniganp” sem commentaði á youtube: “What a savage tune it should be everyones alarm clock fan-fucking-tastic” Ég gæti ekki orðað það betur sjálfur, shit hvað ég hlakka til að sjá þetta lag live! Það var reyndar eitt annað ansi gott comment á youtube sem var eitthvað á þessa leið: the drummer looks like he’s constantly surprised while playing the drums. Það fannst mér fyndið.

Firesuite (Lost Souls, 2000)



Fyrsta lagið á fyrstu plötunni þeirra. Eina instrumental lagið sem ég man eftir í svipinn sem ég hef fallið jafn kyrfilega og þetta. Það er eitthvað svo “grúví” við þetta allt saman. Þeim tekst einhvern veginn, á svo ótrúlegan hátt, að búa til svo flottan “hljóðheim” (er það orð til í íslensku?) sem grípur mig.

Catch the sun (Lost Souls, 2000)



Hugsanlega mest catchy lagið með þeim. Þetta var fyrsta lagið sem ég heyrði með Doves, sumarið 2003 í Kaupmannahöfn. Þá leigði ég íbúð í einn mánuð af Hjalta nokkrum Harðarsyni, félaga mínum sem ég hafði kynnst í Köben haustið áður. Ég stalst til að hlusta á nokkra diska sem hann hafði skilið eftir í íbúðinni, þar á meðal var safndiskur sem þetta lag var á. Eftir það var ekki aftur snúið, ég var hooked á Doves. Ætli ég eigi þá ekki að þakka Hjalta fyrir að kynna mig fyrir Doves. Annað lag sem ég man eftir að ég hlustaði mikið á þetta sumar í íbúðinni hans var Slow Emotion Replay með The The, það er frábært lag með frábærum munnhörpukafla.

Caught by the river (The Last Broadcast, 2002)



Síðasta lagið af plötunni. Þessi útgáfa er styttri en plötuútgáfan, mér sýnist þetta hafa verið notað í OC einhvern tímann. Frábært lag, lítið meira um það að segja.

The Cedar Room (Lost Souls, 2000)



Ég var dáldið lengi að fatta þetta lag. Það er falið aftarlega á fyrsta disknum þeirra og það tekur frekar langan tíma að byrja og þess vegna sleppti ég því oft þegar ég var að hlusta á diskinn. En það skemmtilega við Doves er hvað þeir vinna mikið á við hverja hlustun. Komst að því síðar að það var víst gefið út sem singull. Singullinn er 4 mín og 39 sek, á plötunni er lagið 7 mín og 39 sek. Þetta er lengri útgáfan live, sú styttri nær einhvern veginn ekki þeim snilldarhæðum sem sú lengri nær. Söngurinn er eilítið “pitchy” á köflum, eins og Simon Cowell myndi segja – en það kemur ekki að sök.

Satellites (The Last Broadcast, 2002)



Ég ætlaði að sleppa þessu lagi, en ég hreinlega gat það ekki. Frábært lag og svo viðeigandi endir á þessum (allt of langa) “5” laga lista. Næst mun ég ná að stytta listann niður í 5 lög, ég lofa.

Saturday 4 April 2009

Amy Amy Amy....

Jæja þá er komið uppkast af tónleikaplaninu okkar og ef ég þekki okkur rétt þá á eftir að bætast verulega á listann....
1 maí förum við á Doves sem er á topp 5 listanum hans JEH, ég hef reyndar ekkert hlustað á þá en þarf að fara að undirbúa mig fyrir atburðinn.
31 maí förum við svo að sjá uppáhaldið mitt, enga aðra en Amy Winehouse...ég get ekki beðið og er byrjuð að telja dagana !!!.
15 júní förum við á Kings of Leon með Gyðu og Danna. Við sáum þá live á Brit Awards og þá jókst álit mitt á þeim, rosa góðir live hlakka ekkert smá mikið til.
Svo eru fleiri tónleikar sem við erum að spá í að fara á, bara eftir að kaupa miða. Mig langar rosalega mikið að fara á Jamie Cullum og vonandi getum við reddað miðum á hann. Ef ég fæ að sjá Amy og Jamie þá er ég sátt !!

Annars er sumarið komið hérna hjá okkur og það munar ekkert smá miklu þegar veðrið er almennilegt, annað en skíta veðrið alltaf á Íslandi. Fórum á Arsenal – Man city í dag í æðislegu veðri og auðvitað vann okkar lið. Erum svo búin að vera á röltinu í allan dag að skoða okkur um, London er svo stór að það er alltaf eitthvað nýtt að sjá. Á morgun er svo ferðinni heitið á útimarkaðinn í Camden og það vill svo skemmtilega til að Amy Winehouse vinkona mín býr einmitt þar og er ég með heimilisfangið hennar þannig auðvitað ætla ég að rölta þar framhjá....

Þangað til næst..
Ásta

Friday 3 April 2009

Annars konar óhljóð

Kisi er horfinn. Morguninn eftir að ég skrifaði um hann, þá hætti hann þessu breimi. Samt sleppti ég hvorki læðu né doberman hundi til að hafa hemil á honum. Líklegasta skýringin er sú að honum líki illa við ítölsku iðnaðarmennina sem eru að vinna á neðstu hæðinni í húsinu. Þeir byrja nefnilega daginn, kl. 08:00 á því að starta loftpressunni sinni og svo hamast þeir eins og þeir eigi lífið að leysa fram til ca. 10:00. Þegar þeir eru öruggir um að hafa örugglega vakið alla íbúa í nágrenninu, þá hætta þeir á loftpressunni og fara að vinna önnur hljóðlátari störf.

Thursday 2 April 2009

Tuð

Mér finnst íslenskir fjölmiðlar ömurlegir, punktur basta.

Í dag var nokk merkilegur fundur. Leiðtogar helstu iðnríkja heims hittust í London. Niðurstaðan á þeim fundi er mikilvæg, bæði fyrir heiminn og ekki síður fyrir Ísland. M.a. var ákveðið að eyða 120 þúsund milljörðum íslenskra króna til að vinna gegn heimskreppunni og samþykktar hertar aðgerðri gegn skattaskjólum, en slík skjól hafa einmitt verið mikið í fréttum heima.

Ég tók léttan rúnt á nokkrum alþjóðlegum fréttasíðum, alls staðar er þetta fyrsta frétt. Samt sem áður er ekki eitt orð, ekki eitt, á neinni af stóru netfréttasíðunum um niðurstöðu fundarins. Mbl.is, Visir.is, Eyjan.is, Dv.is og Amx.is minnast ekki einu orði á niðurstöðuna. Ekki neins staðar. Stórfréttirnar "spurningakeppni fjölmiðla um hvítasunnu" og "Arnar tekur Bödda í gegn" eru hinsvegar á sínum stað á forsíðunum.

Undantekningin á þessu er www.pressan.is. Þeir fjalla nokk ítarlega um málið, sbr. http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/g20-fundurinn-120-thusund-milljardar-til-ad-vinna-bug-a-heimskreppunni

Þetta verður ekki til þess að breyta áliti mínu á íslenskum blaða- og fréttamönnum. Maður hefði a.m.k. haldið að einhver hefði kveikt á fréttinni með skattaskjólin, nógu mikið hefur verið fjallað um þau skjólin í fjölmiðlum heima. Pressan fær plús í kladdann, restin staðfestir í mínum huga hversu ótrúlega slakt fréttamat íslenskir fréttamenn hafa og í raun hversu ótrúlega slakir íslenskir fréttamenn virðast upp til hópa vera.

Uppfært kl. 1:58 (í andvöku): Nú sé ég að mbl og vísir hafa birt fréttina, eftir að ég skrifaði færsluna. Betra seint en aldrei. Ég gæti e.t.v. dregið einhvern lærdóm af þessu, t.d. að vera ekki með þetta tuð og almenn leiðindi á blogginu. Ég ætla samt að standa við þessa færslu enda er ég enn þeirrar skoðunar að íslenskir fjölmiðlar séu afburðaslakir. Dæmið sem ég tók til að sýna það var bara e.t.v. ekki það besta.