Tuesday 31 March 2009

Breim

Núna, þegar við erum að undirbúa okkur fyrir háttinn, heyrist ámátlegt væl fyrir utan gluggann. Þetta er líklega 4 dagurinn í röð sem þetta væl heyrist, alltaf á þessum sama tíma. Fyrst hélt ég að það væri lítið barn grátandi úti, en gat útilokað það strax. Næsta sem mér datt í hug var að það væri einhver verulega, og þá meina ég verulega, laglaus nágranni með græjurnar í botni í heyrnartólunum að syngja/væla með músíkinni. Það var rangt líka. Það er ekki nokkur maður svona laglaus. En loksins hitti ég naglann með höfðinu. Þetta er lítill kisi.

Þetta væri bara nú alveg bærilegt, jafnvel pínu krúttlegt, ef hljóðið færi jafn snögglega og það kemur. En þessi kisi, hann hættir ekki. Hann er að langt fram eftir nóttu. Reyndar er hann að svo lengi að, að þegar sólin byrjar að rísa og skína beint inn um svefnherbergisgluggann, svona um 6-leytið, þá rumskar maður - ekki við sólina... heldur, já þú giskaðir á það... - við kisa.

Ef ég man það rétt sem maður lærði í barnaskóla, þá eru þetta ungir kisar sem breima vegna kynhvatar sinnar. Þetta hljóta að vera karlakisar - þetta er a.m.k. ekki mjög dömulegt hljóð. Væri það mjög slæm hugmynd að kaupa eina læðu og sleppa henni lausri laust fyrir háttatíma? Eða myndu e.t.v. annars konar hljóð fara að heyrast...

Fyrsta færslan

Nú erum við skötuhjúin komin með blogg. Ætlunin að segja undan og ofan af högum okkar hérna í London. Væntanlega mun verða eitthvað um langlokur frá mér um daginn og veginn, hitt og þetta, en aðallega um ekkert. Svo er þetta frumraun Ástu á bloggsviðinu, við sjáum til hversu dugleg hún verður.

Það er líklega rétt að taka það fram að það er ástæða fyrir því að við skráðum okkur ekki á Moggabloggið. Ég hef engan áhuga á því að kommenta á fréttir, eða að hægt sé að ramba af mbl.is inn á síðuna mína. Þetta er persónulegt blogg okkar, ekki ætlað fyrir aðra en vini okkar, kunningja og velunnara. Þá er það komið á hreint.

Annars er þetta komið ágætt fyrir fyrstu færslu. Meira síðar.

kv,
Johnny