Thursday 2 April 2009

Tuð

Mér finnst íslenskir fjölmiðlar ömurlegir, punktur basta.

Í dag var nokk merkilegur fundur. Leiðtogar helstu iðnríkja heims hittust í London. Niðurstaðan á þeim fundi er mikilvæg, bæði fyrir heiminn og ekki síður fyrir Ísland. M.a. var ákveðið að eyða 120 þúsund milljörðum íslenskra króna til að vinna gegn heimskreppunni og samþykktar hertar aðgerðri gegn skattaskjólum, en slík skjól hafa einmitt verið mikið í fréttum heima.

Ég tók léttan rúnt á nokkrum alþjóðlegum fréttasíðum, alls staðar er þetta fyrsta frétt. Samt sem áður er ekki eitt orð, ekki eitt, á neinni af stóru netfréttasíðunum um niðurstöðu fundarins. Mbl.is, Visir.is, Eyjan.is, Dv.is og Amx.is minnast ekki einu orði á niðurstöðuna. Ekki neins staðar. Stórfréttirnar "spurningakeppni fjölmiðla um hvítasunnu" og "Arnar tekur Bödda í gegn" eru hinsvegar á sínum stað á forsíðunum.

Undantekningin á þessu er www.pressan.is. Þeir fjalla nokk ítarlega um málið, sbr. http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/g20-fundurinn-120-thusund-milljardar-til-ad-vinna-bug-a-heimskreppunni

Þetta verður ekki til þess að breyta áliti mínu á íslenskum blaða- og fréttamönnum. Maður hefði a.m.k. haldið að einhver hefði kveikt á fréttinni með skattaskjólin, nógu mikið hefur verið fjallað um þau skjólin í fjölmiðlum heima. Pressan fær plús í kladdann, restin staðfestir í mínum huga hversu ótrúlega slakt fréttamat íslenskir fréttamenn hafa og í raun hversu ótrúlega slakir íslenskir fréttamenn virðast upp til hópa vera.

Uppfært kl. 1:58 (í andvöku): Nú sé ég að mbl og vísir hafa birt fréttina, eftir að ég skrifaði færsluna. Betra seint en aldrei. Ég gæti e.t.v. dregið einhvern lærdóm af þessu, t.d. að vera ekki með þetta tuð og almenn leiðindi á blogginu. Ég ætla samt að standa við þessa færslu enda er ég enn þeirrar skoðunar að íslenskir fjölmiðlar séu afburðaslakir. Dæmið sem ég tók til að sýna það var bara e.t.v. ekki það besta.

No comments:

Post a Comment